20.12.2007 | 15:42
Af Kjalarnesi
Sú stutta fór í nýjan kjól í morgun og þeir frændur klæddu sig upp í jakkafötin og áttu í löngum umræðum hvort að þeir ætluðu að setja gel í hárið eða ekki. Ég hafði ekki áttað mig á því að því fylgdu kostir og gallar. Ef gel er sett í hárið er hægt að móta það eins og hver vill, setja hanakamb eða bara vera töffari en gallinn er sá að þá þarf maður að fara í sturtu og þvo sér um hárið því að það verður dálítið hart og klístrað ef gelið verður gamalt. Það varð úr að annar er með gel í hárinu en hinn ekki. Það er mjög gott þegar svona ungir piltar meta kosti og galla áður en ákvarðanir eru teknar. Það held ég að sé holt veganesti.
Eftir að allir voru komnir í sín fínustu föt þá var haldið af stað og kíkt á jólaball í Klébergsskóla. Voru börnin til fyrirmyndar, sungu og dönsuðu í kringum vel skreytt tré. Ja reyndar vildi sú yngsta ekki dansa sjálf en tók þátt sitjandi á örmum mínum, seig vel í á 13. lagi. Hún hefur sungið vel eftir að við komum heim.
En við teljum niður í jólin og allt að verða klárt, það er að segja það sem verður að vera klárt. Hér á bæ er forgangsraðað vegna mikillar vinnu og veikinda í desember og eru rólegheit nú síðustu daga tekin framyfir mjög mikla tiltekt og búðarráp. Þeim sem vilja staldra við er bent á grein eftir eina úr fjölskyldunni í Bændablaðinu.. bls. 8.
Kveðja Bára
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.