16.7.2008 | 23:29
24x24 Glerárdalsgöngunni 2008 lokið
Ég fór í eitt mesta þrekvirki sem ég hef á ævi minni farið í en við Leifi skelltum okkur í Glerárdalsgönguna á laugardaginn þar sem markmiðið var að ganga fjöllin kringum Glerárdalinn og fara 24 tinda á 24 tímum. Samanlögð hækkun er um 4.000 metrar og heildarvegalengd leiðarinnar eru rétt tæpir 50 km. Hæsta fjall á leiðinni er Kerling 1.538 m.y.s. (tindur nr. 18) en það lægsta er Hlíðarhryggur 1.100 m.y.s. 10 af þessum fjöllum eru yfir 1400 m (Þverfellshorn á Esjuna er 720 m.y.s.).
*
94 hófu þáttöku en fljótlega fóru einn og einn að gefast upp og tínast úr hópnum þannig að allt í allt vorum við 62 sem kláruðum. Leifi fór í A-hóp (þeir fóru hraðast yfir) og kláraði hringinn á 18 klst. og 40 mín og var hann fyrstur í mark ásamt einum öðrum (ekki að spyrja að því, er rosa stolt af honum).
*
Klaufinn ég var í B-hóp en varð að færa mig niður í B-2 hóp á 9. tindi eftir að hafa dottið í skriðu og runnið niður eina hlíðina á 6. tindi, ég náði nú að stoppa mig áður en ég lennti í urðinni fyrir neðan en tognaði við það í vinstri náranum. Ég kom sjálfri mér alveg rosalega á óvart og ákvað á þrjóskunni að bíta bara á jaxlinn (ásamt því að taka íbúfen öðru hvoru) og klára næstu 18 tinda þrátt fyrir að það væri rosalega sárt í öðru hverju skrefi. Ég fór því tindana 24 á rúmum 27 tímum og þeir síðustu komu í mark á rúmum 28 tímum. Er alveg rosalega stolt af mér að hafa klárað því við vorum bara 3 eftir í B-2 hópnum í lokinn og ég veit að það voru bara 2 eftir í C hópnum.
*
Þetta er að alerfiðasta sem ég hef nokkru sinni gert (þar með talið þessir 4,5 sólahringar sem það tók mig að koma Viktori í heiminn) enda er enginn jarðvegur í fjöllunum fyrir norðan heldur bara stórgrýti og rosalega lausgrýtt þannig að reglulega heyrðist kallað GRJÓT !!! og þá var vissara að forða sér þegar steinhnullungar hentust niður hlíðarnar.
*
Mikið klifur og klöngur og rosalega bratt. Veðrið hefði mátt vera betra en það var þoka og rigning mest allan tímann og því ekkert útsýni en blautt og kalt enda meiri hluti leiðarinnar fyrir ofan snjólínu. Ég viðurkenni alveg að ansi oft bölvaði ég sjálfri mér í huganum fyrir að vera að koma mér út í svona vitleysu. Á einum stað á leiðinni lofaði ég sjálfri mér að gera þetta aldrei aftur. Það entist nú ekki lengi því strax núna er ég farin að hugsa um að koma mér í betra form svo að ég geti náð þessu á 24 tímum næst (bilun ég veit).
*
Tilfinningin þegar ég kom í mark var alveg ótrúlega góð og hér eftir veit ég að ég get allt ef ég hef rétta hugarfarið, viðmiðið hefur breyst. Hefði ég vitað hversu stórgrýtt og lausar skriður eru í fjöllunum hefði ég ábyggilega aldrei farið og aldrei trúað því að ég gæti þetta sem sýnir mér að maður getur miklu meira en maður heldur. Var við það að hætta við fyrstu 11. tindana en þrjóskaðist áfram.
*
Núna blossar upp í mér metnaðurinn og nú er ég ekki alveg nógu sátt við að nárinn skildi hafa hægt á mér því þá hefði ég líklegast náð þessu á 26 tímum.... hehe svo lítur maður nú ekkert sérlega vel út þegar fólk spyr okkur hvað við vorum lengi og Leifi kom í mark tæpum 9 tímum á undan mér (hann var búinn að fara heim í sturtu, borða og sofa í nokkra tíma þegar ég kom í mark) en hann er nú ekki í lagi heldur (hann hljóp niður síðasta fjallið og allar mýrarnar).
*
Þetta var nú samt alveg ótrúlega gaman, takk Bára og Hrönn fyrir að hafa passað börnin okkar á meðan.
*
Við erum búin að hafa það ótrúlega gott í sumarfríinu sem hófst á Drangsnesi og í Kaldbaksvíkinni hjá Gúnda frænda. Erum svo núna enn á Norðurlandinu, fórum í heimsókn til Gunnu frænku á Húsavík í dag og fengum að sjálfsögðu hlýjar móttökur í Höfðabrekkunni. Viktor og Birna urðu svo eftir í góðu yfirlæti hjá henni á meðan við Leifi skruppum upp á Húsavíkurfjall fyrir matinn.
*
Svo er stefnan tekin á eina fjallgöngu í Eyjafjarðarsveitinni á sunnudaginn svona sem upphitun fyrir 3ja daga göngu um Látraströnd, Fjörður og Flateyjardal í næstu viku.
Kveðja Dröfn og fjallageiturnar
Athugasemdir
Já þið eruð nú meiri fjallageiturnar ;) Þetta hljómar mjög spennandi, fyrir ykkur.. hehe. Til hamingju með árangurinn.
Halla (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 08:10
Já ég og Bára erum til í að passa næsta ár ef ég er í fríi. Þetta var mjög gaman að hafa þau tvö í útilegunni okkar.
kv. Hrönn
ps ég er að reyna að koma inn myndum en gengur eitthvað brösuglega.
Hrönn (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 11:12
Tek undir með Höllu - hljómar spennnandi fyrir YKKUR - hehe held ég myndi aldrei fara svona fjallgöngur þó svo að ég væri í fantaformi... En það var gaman að passa á meðan og fylgjast með þessu.
kv. Bára eða sem heitir Katrín núna og hún heitir litla Bára
Bára (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 16:08
Til hamingju með þennan árángur :) Spurning samt hvort þið séuð ofvirkust í fjölskyldunni.. allavega myndi ég aldre detta í hug að fara klífa tinda á 24 tímum :P
Viktoría (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 18:43
he he já það er spurning hvort að ég hefði verið sett á rítalín í denn ef það hefði verið þekkt hehe. En það er alltaf gaman að ögra sjálfum sér svolítið.
Kveðja að norðan, ég er nú farin að sakna ykkar svolítið
Dröfn
Dröfn (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.